• Heimsminjar.is
  • Heimsminjar.is
  • Heimsminjar.is
  • Heimsminjar.is
  • Heimsminjar.is
  • Heimsminjar.is
  • Heimsminjar.is
  • Heimsminjar.is
  • Heimsminjar.is
  • Heimsminjar.is
  • Heimsminjar.is
  • Heimsminjar.is
  • Heimsminjar.is
  • Heimsminjar.is
  • Heimsminjar.is
  • Heimsminjar.is
  • Heimsminjar.is
  • Heimsminjar.is
  • Heimsminjar.is
  • Heimsminjar.is
UNESCO
UNESCO

Ísland aðili að alþjóðlegum sáttmála UNESCO

Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður, formaður Heimsminjanefndar Íslands


Ísland aðili að alþjóðlegum sáttmála UNESCO

Árið 1995 gerðist Ísland aðili að samningi UNESCO frá árinu 1972 um verndun menningar- og náttúruarfleifðar heimsins. Með samningnum sameinuðust aðildarríki UNESCO um alþjóðlegan sáttmála til verndar heimsminjum, standa vörð um menningu heimsins og  sporna gegn eyðileggingu minja.

Til þess að ná fram meginmarkmiðum samningsins er haldin sérstök heimsminjaskrá yfir einstaka staði á jörðinni og alþjóðlega viðurkennd verndarsvæði.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur umsjón með framkvæmd samningsins fyrir hönd Íslands. Á vegum þess starfar annars vegar íslenska UNESCO-nefndin sem er stjórnvöldum til ráðuneytis í málum er varða UNESCO og hins vegar heimsminjanefnd Íslands, sem vinnur að eftirfylgni við heimsminjasamninginn fyrir hönd stjórnvalda og er ætlað að gera tillögu til ríkisstjórnarinnar að yfirlitsskrá yfir staði á Íslandi sem til greina kemur að tilnefna á heimsminjaskrá UNESCO.

Mennta- og menningarmálaráðherra afhendir UNESCO yfirlitsskrána til staðfestingar í samræmi við ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Í kjölfar þess hefst vinna við tilnefningu valinna staða á yfirlitsskránni, sem  getur tekið nokkur ár. Þegar tilnefning liggur fyrir er hún afhent heimsminjaskrifstofu UNESCO og hefst þá tveggja ára matsferli. Þegar því lýkur er tilnefningin lögð fyrir ársfund alþjóðlegu heimsminjanefndarinnar þar sem sitja fulltrúar aðildaríkjanna.

Á þeim fundi er tekin ákvörðum með atkvæðagreiðslu aðildarríkjanna um hvort staðurinn verði samþykktur á heimsminjaskrá UNESCO. Á þessari vegferð eru mörg nálaraugu. Til þess að lokaáfanga verði náð þarf staðurinn að standast  kröfur um að vera einstakur á jörðinni. Þegar staður er kominn á heimsminjaskrána ber að virða og umgangast hann í samræmi við gildi hans og viðmið UNESCO enda staðurinn þá orðinn sameign mannkyns.

Fyrsta íslenska yfirlitsskráin var lögð fram á skrifstofu heimsminjanefndarinnar í París árið 2001 og hófst undir búningur að tilnefningu Þingvalla við samþykki hennar. Á þessari yfirlitsskrá voru auk Þingvalla og Surtseyjar; Skaftafell, Breiðafjörður, Núpsstaður, Keldur, Gásir, Reykholt, Víðimýri, Mývatn, Herðubreiðarlindir og Askja. Tilnefning Þingvalla var samþykkt með atkvæðum allra aðildaríkja á fundi hinnar alþjóðlegu heimsminjanefndar sem haldinn var í Suzhou í Kína í júlí árið 2004. Var það stórkostleg stund fyrir Íslendinga og markaði í raun kaflaskil í minja- og náttúruvernd á Íslandi.

Tilnefning Surtseyjar var samþykkt á heimsminjaskrána í júlí árið 2008 í Québec í Kanada, sem var sömuleiðis merkur áfangi. Surtsey var viðurkennd á heimsminjalistann á grundvelli vöktunar og rannsókna á þróun eyjunnar. Samþykktin felur í sér viðurkenningu til íslenskra stjórnvalda á friðun Surtseyjar 1965 og varðveislu náttúru hennar.

Heimsminjaskrá UNESCO er talin leiða til þess að fagleg sjónarmið séu í heiðri höfð við minja- og náttúruvernd. Á heimsminjaskránni eru einungis skráðir einstakir staðir á jörðinni og alþjóðlega viðurkennd verndarsvæði. Þar eru alls um 900 staðir í heiminum. Meðal þekktustu staðanna eru píramídarnir í Egyptalandi, Signubakkarnir í París, Frelsisstyttan í New York, Akropolis í Aþenu, Stonehenge á Englandi, Kínamúrinn, Taj Mahal á Indlandi og Grand Canyon í Bandaríkjunum . Allt eru þetta mjög viðurkenndir ferðamannastaðir sem almennt er borin virðing fyrir.

Heimsminjaskráin er þannig talin hvetja til vandaðrar ferðaþjónustu en erlendis hefur reynslan sýnt að skráning staða á heimsminjaskrá UNESCO hefur leitt til aukins áhuga og virðingar ferðamanna og heimamanna. Ef staður er skráður á heimsminjaskrá á viðkomandi ríki þess kost að fá alþjóðasamfélagið til samstarfs um að upplýsa íbúa viðkomandi lands og ferðamenn um einstakt gildi staðarins og aðstoða þannig við að varðveita náttúru- og menningarminjar hverrar þjóða. Ferðamönnum fjölgar gjarnan til staða á heimsminjaskrá og því verða staðirnir mikilvægir fyrir þjóðarhag.

 

Nýjar áherslur UNESCO um heimsminjar á 21. öld

Á nýrri yfirlitsskrá, sem heimsminjanefnd Íslands vinnur nú að, er unnið í samræmi við nýjar áherslur UNESCO. Þar er samhengi  og heildarumfang þeirra minja sem um ræðir haft að leiðarljósi meðal annars  með svokölluðum raðtilnefningum á heildum, sem jafnvel ná yfir landamæri margra landa. Hjá UNESCO er nú einnig lögð meiri áhersla á jafna dreifingu heimsminjastaða á jörðinni og jafnvægi menningar- og náttúruminja.

Á hinni nýju yfirlitsskrá eru Breiðafjörður, Þingvallasvæðið allt, Vatnajökulsþjóðgarður, Mývatn, raðtilnefning íslenskra torfbygginga ásamt tengdu menningarlandslagi. Auk þess er verið að vinna að undirbúningi að þátttöku í tveimur alþjóðlegum raðtilnefningum það er um náttúruminjar í tengslum við Atlantshafshrygginn svo og norrænar minjar sem tengjast menningu víkinga. Vinnan við tilnefningu víkingaminja er hafin og leiðir Ísland þá vinnu. Stefnt er að því að skila inn umsókn í byrjun árs 2012.

 

Áþreifanlegur og óáþreifanlegur menningararfur

Á málþingi með yfirskriftinni UNESCO og menningararfurinn, sem nýlega var haldið á vegum íslensku UNESCO nefndarinnar í Þjóðminjasafni Íslands var meðal annars rætt um áþreifanlegan og óáþreifanlegan íslenskan menningararf i alþjóðlegu samhengi.

Hinn óáþreifanlegi menningararfur er ekki síður mikilvægur en hinar sýnilegu minjar, og oft fer þetta tvennt saman sem órofa heild. Á árinu 2003 samþykktu aðildarlönd UNESCO samning um varðveislu óáþreifanlegra minja eða öðru nafni menningarerfða. Með því er átt við að heimsminjar geti verið fólgnar í hefðum, þekkingu og siðum ekki síður en varðveittum mannvirkjum. Heimsminjar geti þannig verið huglægur menningararfur ekki síður en áþreifanlegar minjar, manngerðar og náttúrulegar.

Þjóðminjasafn Íslands varðveitir merk torfhús sem endurspegla sambúð lands og þjóðar. Þau eru í senn áþreifanlegur og óáþreifanlegur íslenskur menningararfur. Við undirbúning á tilnefningu íslenska torfhúsaarfsins verður meðal annars tekið mið af hinni sérstöku íslensku hefð.  Þar  reynir á samhengi áþreifanlegs og óáþreifanlegs menningararfs. Torfbæirnir í húsasafni Þjóðminjasafns Íslands verða kjölfesta tilnefningar íslenska torfbæjarins en nokkur fleiri torfhús verða með í raðtilnefningunni, sem er mikilsvægt þar sem fá torfhús standa enn. Vinna við tilnefningu torfbæjararfsins er þverfaglegt verkefni fræðimanna, handverksmanna og staðkunnugra þar sem minjarnar sjálfar, byggingartæknin og hinn óáþreifanlegi arfur eru leiðarljós. Lögð verður áhersla á sérstaka þýðingu þeirra á heimsvísu. Er það von þjóðminjavörslunnar að það muni leiða til varðveislu þeirra torfhúsa sem enn standa ásamt þeirri þekkingu sem til þarf.

 

Varðveisluskrá UNESCO

Annar merkur arfur í alþjóðlegu samhengi er fólginn í handritasafni Árna Magnússonar sem UNESCO setti á sérstaka varðveisluskrá sína – Minni heimsins - árið 2009 ásamt á fjórða tug annarra verka. Tilgangur varðveisluskrárinnar  er að vekja athygli á mikilvægi þess að varðveita hinn andlega menningararf veraldar með því að útnefna einstök skjala- og handritasöfn, sem hafa sérstakt varðveislugildi.

Í mars 2008 stóðu Ísland og Danmörk sameiginlega að því að tilnefna handritasafn Árna Magnússonar á varðveisluskrána en safnið er varðveitt hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og í Árnasafni í Kaupmannahöfn. Ákvörðun UNESCO er grundvölluð á vönduðu mati og felur í sér mikla viðurkenningu á menningararfi íslenskra handrita. Hefur ákvörðunin vakið mikla athygli á mikilvægi handritanna í alþjóðlegu samhengi og sýnir að þau eiga erindi við heiminn allan. Ánægjulegt er að sjá árangur samvinnu tveggja þjóða við varðveislu þessa sérstæða menningararfs okkar allra.

 

Horft til framtíðar

Mikilvægt er að vinna vel úr þeim möguleikum sem skapast þegar náttúra og minjar á Íslandi eru samþykktar á heimsminjaskrána og því sem þá tekur við. Hafa ber í huga að um er að ræða einstakar áþreifanlegar eða óáþreifanlegar minjar sem er framlag Íslands til arfleifðar mannkyns. Það krefst vitundarvakningar þjóðarinnar að nýta tækifærin til góðs í íslensku samfélagi. Á það við um áherslur í náttúruvernd og minjavörslu. Náttúra Íslands og menningararfur eru auðlind sem byggja má á til framtíðar. Umönnun heimsminjastaða okkar og vönduð kynning menningararfsins eykur þekkingu komandi kynslóða og skapar fjölmörg tækifæri fyrir landsmenn alla.

Það er von okkar sem vinnum að tilnefningum íslensks menningararfs og náttúru að þær fái farsælt brautargengi með víðtækri þátttöku.

 

Nánari upplýsingar um heimsminjaskrá UNESCO er að finna á  http://www.nwhf.no/ og www.unesco.org/whc